Brasilíska goðsögnin Marcelo er ekki tilbúinn að afskrifa sitt gamla félag þrátt fyrir slæma stöðu hjá ríkjandi meisturum. Arsenal vann fyrri leikinn 3-0 í London þar sem Declan Rice skoraði tvívegis beint úr aukaspyrnu.
„Þú getur aldrei afskrifað Real Madrid,“ sagði Marcelo við ESPN.
„Þrjú mörk er mikið forskot en hugur minn er alltaf hjá Real Madrid og ég hef trú á því að þeir komi til baka. Real Madrid er Real Madrid og þeir koma alltaf til baka,“ sagði Marcelo.
„Seinni leikurinn er á Bernabéu og þeir munu fá mikinn stuðning þar. Ég veit að leikmennirnir hafa trú á því að þetta sé hægt. Auðvitað vitum við ekki hvað gerist í þessum leik en við höfum trú og Real Madrid mun koma til baka,“ sagði Marcelo.
Marcelo segir það að vinna sé hluti af erfðaefni leikmanna Real Madrid.
„Frá því að ég gekk til liðs við Real Madrid þá var okkur kennt að gefast aldrei upp og það hefur alltaf verið í blóðinu okkar. Þetta hefur verið þannig í mörg ár en fyrir utan erfðaefnið þá leggja menn mikla vinnu á sig, sýna auðmýkt, rækta líkamann á hverjum degi og fá gríðarlegan stuðning frá sínu fólki. Allt þetta vinnur saman í að láta hlutina ganga upp,“ sagði Marcelo.
Marcelo vann 25 titla með Real Madrid, þar af Meistaradeildina fimm sinnum og spænsku deildina sex sinnum.