Öll börn Atla Hilmarssonar og Hildar Kristjönu Arnardóttur hafa nú orðið bikarmeistarar.
Eldri systkini Davíðs urðu reyndar bikarmeistarar í handbolta og ekki með Víkingi.
Arnór Atlason, lykilmaður í íslenska landsliðinu um árabil og núverandi aðstoðarþjálfari Aalborg í Danmörku, varð bikarmeistari með KA 2004 og FCK í Danmörku sex árum síðar. Arnór var stórkostlegur í bikarúrslitaleiknum 2004 og skoraði 13 mörk í 31-23 sigri KA á Fram.

Árið 2009 varð Þorgerður Anna Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni undir stjórn föður síns.
Arnór varð einnig Íslandsmeistari með KA undir stjórn föður síns 2002.
Ólíklegt verður að teljast að Davíð nái því að vinna titil undir stjórn föður síns sem einbeitti sér að handboltanum.
Atli varð sjálfur bikarmeistari sem leikmaður með FH 1994, sama ár og Davíð fæddist. Arnór er fæddur 1984 og Þorgerður Anna 1992.
