Innlent

Send í bankann með eina milljón í senn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Embætti héraðssaksóknara rannsakar málið.
Embætti héraðssaksóknara rannsakar málið. Vísir/vilhelm
Tugir eru grunaðir um aðild að afar umfangsmiklu peningaþvætti á höfuðborgarsvæðinu, sem talið er nema hundruðum milljóna króna. Þá eru þrír í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Um tuttugu manns, allt íslenskt fólk á þrítugsaldri, hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið og hafa stöðu sakbornings. Þá er málið sagt teygja anga sína víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, þar sem héraðssaksóknari réðst í handtökur og húsleitir ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Samkvæmt upplýsingum RÚV teygja brotin sig rúm tvö ár aftur í tímann. Á tímabilinu hafi fólkið ítrekað farið í banka með um eina milljón íslenskra króna og skipti henni í evrur. Fólkið er sagt hafa fengið um tíu þúsund krónur í sinn hlut fyrir hverja ferð í bankann og peningaþvættið talið nema hundruðum milljónum króna. Þar af hefur verið lagt hald á yfir tuttugu milljónir króna í reiðufé.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í samtali við RÚV að rannsókn málsins væri á afar viðkvæmu stigi. Hann gat ekki tjáð sig frekar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×