Lífið

Markmiðið að safna einum milljarði króna og líta vel út á meðan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Georg Hólm, bassaleikari Sigur Rósar, er á meðal þeirra sem tóku þátt í hópreiðinni í fyrra.
Georg Hólm, bassaleikari Sigur Rósar, er á meðal þeirra sem tóku þátt í hópreiðinni í fyrra. Baldur Kristjánsson
Um 130 þúsund manns á mótorhjólum hafa skráð sig til leiks í The Distinguished Gentleman‘s Ride sem fram fer á sunnudaginn. Um er að ræða áheitahópreið klassískra mótorhjóla og vel klædds mótorhjólafólks. Ekið er til stuðnings rannsóknum á blöðruhálskrabbameini og baráttunnar gegn sjálfsvígum og njóta Mowember-samtökin góðs af. Allir fjármunir sem safnast renna beint til þeirra.

Þetta er í annað sinn sem hópreiðin er í Reykjavík. Samtímis verður ekið á klassískum mótorhjólum um allan heim og eru yfir 130 þúsund þátttakendur skráðir á yfir 700 stöðum víðsvegar um heiminn en enn er opið fyrir skráningu. Markmiðið er að safna sjö milljón dollrum, um einum milljarði króna, til góðra málefna og líta vel út á meðan, að því er fram kemur í tilkynningu frá Herramönnum á hjólum.

Daði Einarsson, sem þekktur er fyrir tæknibrellur sínar í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, er meðal þeirra sem eru í forsvari fyrir herramennina.

Rúmlega hundrað þátttakendur tóku þátt í Reykjavík í fyrra á mörgum af flottustu mótorhjólum sem sjást á götum borgarinnar.

Staðsetning verður ekki gefin upp fyrr en skráningu er lokið og búið að styrkja málefnið. Skráning fer fram hér.

„Eina sem þarf að gera er að skrá sig, byrja að safna áheitum af krafti, grafa upp sitt fínasta púss og bóna mótorhjólið. Njóta þess svo að hjóla í haustblíðunni og vita að góð og nauðsynleg málefni njóta góðs af,“ segir í tilkynningu.

Ljósmyndararnir Árni Sæberg og Baldur Kristjánsson mynduðu þátttakendur í hópreiðinni í fyrra.

Hópreiðin kom við á Kaffibarnum í fyrra þar sem Bartónar sungu.Árni Sæberg
Ferfætlingar fengu að sitja í.Árni Sæberg
Allir mættu í sínu fínasta pússi í fyrra.Baldur Kristjánsson
Yfir hundrað manns tóku þátt í fyrra hér á landi.Baldur Kristjánsson
Mótorhjólin voru alls kyns en flest stórglæsileg.Baldur Kristjánsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.