Innlent

Í gæsluvarðhaldi eftir bílránið í Grafarholti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum og fékk í gegn fjögurra vikna varðhald á grundvelli almannahagsmuna.
Lögreglan fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum og fékk í gegn fjögurra vikna varðhald á grundvelli almannahagsmuna. Vísir/Vilhelm
Karlmaður á fertugsaldri var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur grunaður um bílrán og ógætilegan akstur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði kröfu um varðhaldið í dag en maðurinn var handtekinn í austurborginni síðdegis í gær eftir að tilkynning barst um rán á bifreið.

Bifreiðin fannst nokkru síðar í Grafarvogi, sem og ökumaðurinn, en áður höfðu borist nokkrar tilkynningar um mjög ógætilegan akstur mannsins. Tveir aðrir voru enn fremur handteknir í þágu rannsóknar málsins, en þeir eru báðir lausir úr haldi lögreglu.

Maðurinn er í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.

Í tilkynningu frá lögreglu í morgun kom fram að tveir karlmenn og ein kona hefðu í gær rænt bíl af manni, ráðist á hann, tekið farsíma hans og skilið hann eftir slasaðan á vettvangi í Grafarholti. Lögregla handtók fólkið á sjötta tímanum í gær.

Sagði í tilkynningunni að fólkið væri m.a. grunað um rán, þjófnað, nytjastuld bifreiðar, akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, eignaspjöll og að hafa valdið umferðaróhappi og stungið af.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×