Skoðun

Að­gengi barna sem sótt hafa um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi að menntun og tóm­stundum

Ahlam Majed Jalkhi og Sema Erla Serdar skrifar
Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú. Í lok árs 2018 voru 70.8 milljónir einstaklinga á flótta um allan heim undan stríði, ofsóknum, átökum, mannréttindabrotum og ofbeldi. Um helmingur þeirra sem voru á flótta í lok árs 2018 voru börn yngri en 18 ára. Samhliða auknum fjölda fólks á flótta hefur fjöldi barna sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi aukist til muna. Frá árinu 2016 hefur Útlendingastofnun afgreitt umsóknir yfir 700 barna, þar af 69 barna sem komu ein til landsins. Aðstæður barnanna hafa sætt töluverðri gagnrýni, meðal annars frá frjálsum félagasamtökum og almenningi. Sú gagnrýni beinist meðal annars að aðgengi barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi að menntun og tómstundastarfi.

Á Íslandi er skólaskylda fyrir börn á aldrinum 6 – 16 ára samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013. Í honum er skýrt kveðið á um að aðildarríkjum beri skylda til þess að veita börnum og ungmennum aðgengi að grunnmenntun, þeim að kostnaðarlausu, og möguleika til framhaldsnáms. Barnasáttmálinn nær til allra þeirra barna sem stödd eru á Íslandi á hverjum tíma. Það á einnig við um börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Lög um útlendinga nr. 80/2016 staðfesta enn fremur að öll börn af erlendum uppruna sem stödd eru hér á landi, þar með talið börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd, falli undir lög um skólaskyldu og eigi rétt á skólagöngu og menntun. Í 27. grein reglugerðar 540/2017 um útlendinga segir að „börnum fram að 18 ára aldri skal tryggð menntun. Útlendingastofnun skal tryggja að barn sé að jafnaði ekki lengur en fjórar vikur í umsjá stofnunarinnar án þess að vera komið í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar. Leitast skal við að barn sé komið í almennan skóla innan 12 vikna frá umsókn um alþjóðlega vernd.“

Mjög mismunandi er hversu lengi börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi bíði eftir því að komast í skóla og biðin er oft mjög löng. Sum börn eru án skólagöngu svo vikum eða mánuðum skiptir. Þá hafa sum börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki fengið neitt aðgengi að menntun á meðan þau dvöldu hér á landi. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af því að umsækjendur um alþjóðlega vernd á skólaaldri þurfi að bíða lengi eftir viðeigandi menntun og starfsþjálfun eða fái jafnvel ekki aðgengi að menntun. Telja margir að 12 vikna viðmið sé of langur tími án skólagöngu. Þá virðist aðgengi barnanna að menntun vera mismunandi eftir stöðu þeirra sem og eftir því hvar þau fá þjónustu. Slík mismunun er óásættanleg.

Mikilvægi menntunar og tómstunda fyrir börn á flótta

Börn sem sækja um alþjóðlega vernd eru í mjög viðkvæmri stöðu og huga þarf sérstaklega að velferð þeirra. Börn sem leita alþjóðlegrar verndar hafa mismunandi bakgrunn hvað varðar skólagöngu. Sum hafa gengið í skóla í heimalandi sínu og eiga að baki tiltölulega samfelldan skólaferil á meðan skólaganga hjá öðrum kann að hafa verði ósamfelld. Þá hafa enn önnur börn aldrei gengið í skóla.

Börn í þessari stöðu eru mörg hver að takast á við áfallareynslu eftir flóttann. Auk þess upplifa börnin oft nýja streituvalda og erfiðar breytingar, sem meðal annars fela í sér óöryggi og óvissu um framtíð þeirra. Slíkt getur haft áhrif á sálfélagslega vellíðan þeirra. Rannsóknir sýna að þrátt fyrir erfiða reynslu og krefjandi aðstæður geta mörg börn sigrast á erfiðleikum og þróað með sér seiglu og úrræðasemi fái þau tækifæri til þess. Aðgengi að skóla og tómstundum er mikilvæg leið til að stuðla að því.

Rannsóknir sýna að skólinn og skólaumhverfið geta haft jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan barna á flótta. Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að rjúfa einangrun flóttabarna, skólaganga auðveldar þeim að aðlagast samfélaginu og verða hluti af því, byggja upp tengsl við jafningja, eignast vini og læra á nýja samfélagið. Í skólanum og í tómstundastarfi finna börnin að þau tilheyra samfélagi. Það skiptir þau alla jafna miklu máli og getur haft jákvæð áhrif á sálfélagslega vellíðan þeirra. Þátttaka í tómstundastarfi gegnir sama hlutverki og skólinn og getur haft sömu jákvæðu áhrifin en það er mikilvægt að börn í þessum aðstæðum hafi eitthvað fyrir stafni utan skóla. Komið hefur í ljós að skortur er á virkniúrræðum bæði fyrir og eftir að skólaganga barnanna hefst hér á landi auk þess sem þau hafa ekkert fyrir stafni í skólafríum. Úr því þarf að bæta.

Í rannsókn sem gerð var á meðal barna sem sótt hafa um vernd á Íslandi kemur fram að börnin lýsa biðinni eftir skólavist sem erfiðri, sérstaklega þegar það dróst að hefja skólagöngu. Fyrir börnin er biðinni best lýst með aðgerðaleysi, leiða og efasemdum um eigin stöðu. Sum börnin höfðu lítið fyrir stafni og dagarnir voru lengi að líða. Í verkefni UNICEF sem nefnist HEIMA er móttaka barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi skoðuð út frá sjónarhóli barnanna sjálfra. Í viðtölum nefna börnin mikilvægi þess að ganga í skóla og taka þátt í tómstundum fyrir vellíðan þeirra. Þau nefndu að þau upplifðu vanlíðan og einmannaleika þegar þau komu fyrst til landsins, meðal annars vegna þess að þau þurftu að bíða lengi eftir að fá að fara í skóla, þau voru leið yfir að fá ekki að stunda íþróttir eða aðrar tómstundur og áttu erfitt með að eignast vini. Þau upplifðu aðgerðarleysi þar sem þau hafa lítið aðgengi að viðeigandi leikföngum, afþreyingu eða tómstundum og þrá eftir að læra tungumálið og mennta sig.



Ákall um að öllum börnum verði komið í virkni strax

Börn sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi kalla sjálf eftir því að komast fyrr í skóla og tómstundir en þau gera í dag. Við getum ekki annað en brugðist við því ákalli og gert okkar allra besta til þess að bæta úr stöðunni. Það er mikilvægt að við tökum þeirri skyldu og ábyrgð sem við höfum gagnvart þeim börnum sem hingað koma í leit að skjól og vernd alvarlega. Mikilvægt er að tryggja rétt allra barna til menntunar og þátttöku í tómstundum, óháð uppruna eða stöðu.

Það er mikilvægt að koma öllum börnum og ungmennum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi í tómstundir og nám eða starfsnám sem allra fyrst eftir að þau koma til landsins. Það er ekki hægt að láta börnin bíða mánuðum saman eftir að komast í skóla og tómstundir. Virk þátttaka í skóla og tómstundastarfi er mikilvæg til þess að vinna gegn einmannaleika og vanlíðan barnanna og gefur þeim færi á að tengjast samfélaginu. Lögð er áhersla á að börnin hafi eitthvað við að vera sem hæfir þeirra áhugasviði.

Svo virðist sem kerfið í kringum menntun barna sem sækja hér um alþjóðlega vernd og þátttöku þeirra í tómstundum sé ekki hannað með hagsmuni barnanna í huga. Það er mikilvægt að bregðast við því. Það er til að mynda óásættanlegt að munur sé á skólagöngu barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og tómstundaiðkun þeirra eftir því hvort þau séu á ábyrgð Útlendingastofnunar eða sveitarfélaga og svo aftur á milli sveitafélaga. Skýra þarf rétt barnanna til tómstunda í reglugerð og í samningum Útlendingastofnunar við sveitarfélög og tryggja að þau hafi aðgengi að þeim tómstundum sem þau hafa áhuga á.

Kallað hefur verið eftir því að mörkuð verði samræmd og skýr stefna um það hvernig menntun og þátttöku í tómstundum skuli háttað fyrir börn á skólaaldri sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi til þess að koma í veg fyrir brot á réttindum þeirra og mismunun þeirra á milli. Við tökum undir það ákall. Mikilvægt er að skýra ábyrgð og verkaskiptingu, samræma verklag og þróa vinnureglur sem allir vinna eftir. Þá þarf að styðja frekar við kennara og aðra sem vinna með börnunum svo þau séu í stakk búin til þess að takast á við það sem felst í umönnun barnanna á skólatíma og í frítíma þeirra.

Í því samhengi leggjum við áherslu á aukna samvinnu þeirra fagaðila og stofnana sem koma að málefnum barnanna. Mikilvægt er að vinna heildstætt að málefnum barnanna, þvert á stofnanir, kerfi og skólastig, til þess að tryggja velferð og vellíðan þeirra. Æskilegt er að útbúa gagnagrunn sem inniheldur upplýsingar frá kennurum, stuðningsfulltrúum og öðrum sem sinna menntun þeirra, frístundum og tómstundum. Slíkur gagnagrunnur myndi nýtast öllum þeim sem koma að menntun barnanna, innan veggja skólans sem og utan. Með þessum hætti væri hægt að tryggja mikilvægt samræmi í stuðningi við börnin og fjölskyldur þeirra og samfellu í þjónustu. Slíkt samstarf tryggir að reynsla og þekking fagaðilanna færist á milli viðeigandi aðila og auðveldar þeim að stuðla að vellíðan barnsins.

Í dag er einungis lítið hlutfall barna á flótta sem hefur aðgengi að menntun. Það þýðir að milljónum barna um allan heim er neitað um tækifærið til þess að byggja upp þá hæfni og þekkingu sem þau þurfa að búa yfir til þess að geta fjárfest í framtíð sinni. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir því að aukin áhersla verði lögð á menntun barna á flótta og að börnin fái að mennta sig innan þeirra menntastofnana sem eru til staðar í þeim ríkjum sem börnin dvelja í hverju sinni.

Það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld bregðist strax við þeirri stöðu sem er uppi varðandi aðgengi barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi að menntun og tómstundum. Það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld standi við lagalegar skuldbindingar sínar og siðferðilega ábyrgð sína gagnvart börnum á flótta og stuðli að vellíðan þeirra og velferð til framtíðar með því að koma þeim í virkni strax við komuna til landsins. Það getur skipt sköpum fyrir líðan þeirra og velferð í dag sem og í framtíðinni. Börnin hafa sjálf kallað eftir því að komast fyrr í skóla og tómstundir svo þau geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu, eignast vini og liðið vel. Hvernig er annað hægt en að þið bregðist við því?



Höfundar eru Ahlam Majed Jalkhi, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og Sema Erla Serdar, meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.





Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×