Samkvæmt frétt BBC voru mennirnir í dagssiglingu og hafði báturinn verið stöðvaður og voru þeir á sundi að snorkla við bátinn þegar hákarlinn réðst á þá. Nánar tiltekið voru þeir í sjónum við Whitsunday-eyjar nærri Kóralrifinu mikla.
Vitni segja í samtali við ABC News í Ástralíu að þeir Raddon og Maggs hafi verið að ærslast í sjónum þegar hákarlinn réðst á þá.
Mennirnir voru fluttir með bátnum í land og þaðan voru þeir fluttir með þyrlu á sjúkrahús.
Árásin átti sér stað um tíu kílómetra frá vettvangi annarrar árásar hákarls í nóvember í fyrra þegar ástralskur maður lét lífið.
Yfirvöld segja nánast ómögulegt að koma fyrir nokkurs konar varnarnetum við eyjarnar. Það hafi verið reynt eftir árásina í fyrra. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort fara eigi í veiðiátak í kjölfari árásarinnar.