Enski boltinn

Carrag­her bað Evra af­sökunar: „Suarez-bolirnir voru risa­stór mis­tök“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Liverpool hita upp í bolnum.
Leikmenn Liverpool hita upp í bolnum. vísir/getty
Jamie Carragher og Patrice Evra voru gestir Monday Night Football þáttarins á Sky Sports í gærkvöldi en þar var farið yfir víðan völl á knattspyrnuferli Evra.

Eitt atvikið sem um var rætt í þættinum var þegar Evra varð fyrir kynþáttaníði að hálfu Luis Suarez í leik Mancehster United og Liverpool í október 2011.

Suarez var dæmdur í átta leikja bann en í leik í desembermánuði, nokkrum dögum eftir að Suarez fékk bannið, hituðu leikmenn Liverpool up í bolum til stuðnings Suarez.

Þá má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni en þetta féll ekki vel í kramið hjá mörgum. Jamie Carragher, sem þá spilaði með Liverpool, rifjaði upp atburðarásina í gær og segir að þetta hafi verið klaufalegt.

„Það er enginn vafi á því að við gerðum stór mistök. Það er klárt. Þetta var kvöldleikur og af því við vorum að spila á móti Wigan þá ferðuðumst við þangað á leikdegi,“ sagði Carragher er hann rifjaði atvikið upp.

Kenny Dalglish var þá stjóri Liverpool og Steve Clarke var honum til aðstoðar en Carragher segir að hann hafi fyrst heyrt af þessu þegar komið var til Wigan.

„Við fórum þangað og borðuðum hádegismat og svo var fundur. Ég man á fundinum að annað hvort stjórinn eða Steve Clarke spurði einn af leikmönnunum hvort að við ætluðum enn að vera í bolunum. Það var það fyrsta sem ég heyrði af þessu.“

„Ég er ekki að ljúga og segja að ég hafi ekki verið hluti af þessu. Þetta var rangt hjá okkur og við vorum allir hluti af þessu. Ég var varafyrirliði en ég heyrði fyrst af þessu þarna svo ég er ekki viss hver átti hugmyndina.“







„Ég held að Kenny hafi ekkert með þetta að gera, til þess að vera hreinskilinn. Þetta voru leikmennirnir sem voru nánir Luis í búningsklefanum sem vildu styðja liðsfélaga sinn og vin.“

„Það sem ég get sagt persónulega er að ég var kannski ekki með nægilega mikið hugrekki. Kannski voru það fleiri að hugsa það sama. Ég er viss um að allir innan Liverpool hafi ekki hugsað að þetta hafi verið rétt.“

„En sem fjölskylda og knattspyrnufélag eru fyrstu viðbrögð þín - sama hvað gerist - að styðja einhvern sama þótt að það sé rangt. Það er rangt. Ég er ekki að horfa framhjá þessu en þetta eru fyrstu viðbrögðin. Fyrirgefðu. Við gerðum risa mistök,“ sagði Carragher.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×