Skoðun

Samræmt göngulag fornt

Hjálmar Jónsson skrifar
„En, guð sé oss næstur. Það gerist margt hér á landi.

Nú ganga menn uppréttir, jafnvel um hábjartan dag.

Skal dotta í geðlausri deyfð, sem á sama oss standi?

Skal draga í svaðið hið íslenzka göngulag?

Nei, aldrei skal takast þeim ættjarðarlausu bjánum,

að eyða þeim siðferðismætti, sem hér stendur vörð.

Álútir skulu menn ganga! og hoknir í hnjánum!

Og horfa með stilling og festu á íslenzka jörð!“

Mér varð hugsað til þessa kvæðis Steins Steinars og sérstaklega titils þess þegar ég velti fyrir mér ömurlegri framgöngu Samtaka atvinnulífsins í yfirstandandi kjaradeilu við Blaðamannafélag Íslands.

Og ég minnist þess ekki í þau bráðum fjörutíu ár, sem ég hef fjallað um og tekið þátt í kjarasamningum hér á landi, að það hafi ekki verið metnaðarmál atvinnurekenda í öllum greinum atvinnulífsins að bjóða kjarabætur sem að minnsta kosti jöfnuðust á við það sem aðrir höfðu boðið, sama hversu bágt ástandið var í atvinnugreininni. En alltaf lærir maður eitthvað nýtt og nú er svo sannarlega skrifaður nýr kafli í í sögu samskipta verkalýshreyfingar og atvinnurekenda.

Það liggur nefnilega fyrir skjalfest og meitlað í stein að eina tilboð atvinnurekenda til BÍ í yfirstandandi kjaradeilu er verulega lægra en samið hefur verið um við allar aðrar stéttir og starfsgreinar í þessu samfélagi! Ég furða mig bara á því að eigendur þessara fjölmiðla, sem um ræðir, skuli sætta sig við þessa framgöngu SA, sem hefur gert það að verkum að í óefni stefnir.

Svo höfum við blaðamenn auðvitað leyft okkur þá ósvinnu að hugsa sjálfstætt og hafa skoðun á því hvað kemur að mestum notum fyrir starfsgreinina: „Nú ganga menn uppréttir, jafnvel um hábjartan dag.“

Eða eins og blaðamaður til áratuga, sérlega seinþreyttur til vandræða, sendi mér í tilskrifi: „Blaðamannafélag Íslands fer með samningsumboð fyrir sína félagsmenn. Það gengur ekki í samningum tveggja aðila að annar setji hinum ófrávíkjanlegan úrslitakost. Blaðamannafélag Íslands átti ekki neina aðkomu að gerð lífskjarasamningsins og hann er því ekki samningur þess. Auk þess tekur hann ekki á veigamiklum atriðum sem varða starfsumhverfi og kjör blaðamanna.“

Höfundur er formaður Blaðamannafélags Íslands


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×