Magnús Geir Þórðarson mun láta af störfum sem útvarpsstjóri á föstudag, þann 15. nóvember. Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins, mun taka við sem starfandi útvarpsstjóri frá og með þeim degi.
Í tilkynningu frá stjórn Ríkisútvarpsins segir að Magnús Geir muni áfram vera stjórnendum og stjórn Ríkisútvarpsins innan handar ef þess þarf en hann var skipaður í stöðu Þjóðleikhússtjóra þann 1. nóvember síðastliðinn og mun hefja störf 1. janúar.
Auglýst verður eftir arftaka Magnúsar Geirs í stöðu útvarpsstjóra um helgina og er umsóknarfrestur til 2. desember að því er fram kemur í frétt RÚV um málið. Margir eru sagðir koma til greina í stöðu útvarpsstjóra og hafa þónokkrar konur verið sérstaklega nefndar í því samhengi.
Stjórn Ríkisútvarpsins þakkar Magnúsi Geir fyrir samvinnu síðustu ára og óska honum velgengni á nýjum vettvangi. Miklar breytingar hafi orðið í hans tíð hjá Ríkisútvarpinu og eru fjárhagur stofnunarinnar, dagskrárgerð og aukið innlent og leikið efni sérstaklega nefnt.
