Í ákæru á hendur lögreglumanninum, sem þingfest verður í héraði eftir um tvær vikur, kemur fram að lögreglumaðurinn hafi farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku karlmannsins.
Þvingaði handjárnaða handleggi í sársaukastöðu
Er hann sagður hafa slegið karlmanninn í höfuðið við það að setja hann inn í lögreglubifreið og slegið hann síðan tveimur höggum í andlit. Þrýsti hann hné sínu á háls og höfuð hins handtekna auk þess að þvinga handjárnaða handleggi hans ítrekað í sársaukastöðu fyrir aftan bak þar sem karlmaðurinn lá á gólfi lögreglubifreiðar.Var verið að flytja karlmanninn á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Fram kemur að maðurinn hafi hlotið tognun og ofreynslu á hálshrygg.
Hinn handtekni fer fram á að lögreglumaðurinn greiði honum 2,7 milljónir króna í skaða- og miskabætur í málinu.
Það er embætti héraðssaksóknara sem gefur út ákæruna í málinu en frá árinu 2016, þegar embættið var stofnað, hafa ellefu lögreglumenn verið ákærðir fyrir brot í starfi.
Algeng refsing 30 daga fangelsi
Málin skiptast jafnt milli áranna þannig að þrír hafa verið ákærðir á hverju þessara ára en á yfirstandandi ári hafa tveir verið ákærðir. Sakfellt hefur verið í ellefu málum og sýknað í einu. Tveimur málum er ólokið, þar á meðal mál þess lögreglumanns sem hér er til umfjöllunar.Samkvæmt ársskýrslu Ríkissaksóknara fyrir 2018, voru samtals 102 kærur lagðar fram gegn lögreglumönnum á árunum 2016, 2017 og 2018. Aðeins var ákært í níu málum fyrir brot í starfi. Langflestum kærum var vísað frá, málið fellt niður eða fallið frá kæru.
Algeng refsing fyrir brot lögreglumanns í starfi er 30 daga fangelsi. Í fyrra var refsing lögreglumanns milduð úr 60 daga fangelsi niður í 30 daga en hann játaði að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða þegar hann hugðist flytja brotaþola úr fangageymslu og fyrir dómara.
Sýknudómur í máli Bjarna Ólafs Magnússonar í október var fyrsti sýknudómur í máli um brot lögreglumanns í starfi sem kveðinn er upp frá því ákæruvald í mála flokknum fluttist til héraðssaksóknara árið 2016.