Viðskipti innlent

Áhættumat banka Samherja til skoðunar 

Hörður Ægisson skrifar
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME.
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur farið fram á það við íslensk fjármálafyrirtæki, sem hafa verið í viðskiptum við Samherja og félög tengd fyrirtækinu, að þau veiti eftirlitinu upplýsingar um áhættumat þeirra gagnvart útgerðarrisanum og eins hvernig reglubundnu eftirliti hafi verið háttað.

Þetta kemur fram í svari FME við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort eftirlitið hafi kallað eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum um hvernig staðið hafi verið að framkvæmd áreiðanleikakönnunar á Samherja vegna varna gegn peningaþvætti og sömuleiðis hæfismati til að eiga aðild að ákveðnum viðskiptum.

Fjármálaeftirlitið segist, í kjölfar þess að greint hafi verið frá viðskiptaháttum Samherja í Namibíu, hafa óskað eftir „tilteknum upplýsingum frá innlánsstofnunum varðandi það hvort Samherji og félög tengd fyrirtækinu hefðu verið eða væru í viðskiptum við innlánsstofnunina“.

Hafi það reynst raunin fór FME einnig fram á upplýsingar um „áhættumat á þeim félögum og upplýsingum um hvernig reglubundnu eftirliti með þeim væri háttað“, segir í svari FME.

Stjórnir Arion banka og Íslandsbanka, sem er helsti viðskiptabanki Samherja á Íslandi, hafa ákveðið að fara fram á að viðskipti bankanna við útgerðarfélagið verði skoðuð ítarlega.

Landsbankinn hefur ekki viljað tjá sig um málefni einstakra viðskiptavina.

Þá hefur verið greint frá því að stjórnarformaður norska bankans DNB hafi óskað eftir því að viðskipti hans við Samherja og tengd félög, vegna gruns um mögulegt peningaþvætti, verði skoðuð ítarlega innan bankans.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×