Hildur Guðnadóttir tónskáld hlaut í dag tilnefningu til Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl. Verðlaunahátíðin verður haldin þann 26. janúar næstkomandi.
Hildur hefur getið sér afar gott orð í Hollywood að undanförnu. Þannig vann hún Emmy-verðlaun í september fyrir tónlistina í Chernobyl og þá hefur hún verið ausin lofi fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker, einni vinsælustu mynd ársins.
Grammy-verðlaunin eru ein þekktustu tónlistarverðlaun heims og líklega þau allra íburðarmestu vestanhafs. Hildur er tilnefnd í flokki tónlistar í sjónrænum miðlum (e. visual media), þ.e. tónlist kvikmynda og sjónvarpsþátta.
Hildur er eina konan sem tilnefnd er í flokknum í ár. Þeir sem tilnefndir eru með henni eru Alan Silvestri fyrir kvikmyndina Avengers: Endgame, Ramin Djawadi fyrir áttundu og síðustu þáttaröð Game of Thrones, Hans Zimmer fyrir Lion King og Marc Shaiman fyrir Mary Poppins Returns. Hér má nálgast allar Grammy-tilefningarnar í ár.
Sjá einnig: Lykilatriði í Jókernum breyttist algjörlega vegna tónlistar Hildar
Þættirnir Chernobyl eru framleiddir af HBO og fjalla um sögufrægt kjarnorkuslys í samnefndum bæ í Úkraínu. Hildur ræddi tónlistina í útvarpsþættinum Score í maí og lýsti því til að mynda að öll tónlistin hefði verið samsett úr hljóðum úr kjarnorkuveri í Litháen.
„Mig langaði að upplifa hvernig það er að vera inni í kjarnorkuveri,“ sagði Hildur.
„Einleikarinn í hljóðrásinni var hurð að dæluherbergi, við vorum ekki að loka henni eða hreyfa hana neitt en við komum upp að hurðinni með hljóðnema og heyrðum bara fullt af hátíðnihljóðum og hún var að gera fullt af svakalegum hljóðum sem var nánast ekki hægt að heyra. Og ég hlustaði á þessa hurð í marga marga klukkutíma og svo voru kannski þrír mismunandi tónar á 35. mínútu sem ég nýtti í að gera melódíu.“
Hér að neðan má hlýða á lagið Bridge of Death, eða Brú dauðans upp á íslensku, úr smiðju Hildar fyrir Chernobyl-þættina.
Hildur tilnefnd til Grammy-verðlauna

Tengdar fréttir

Lykilatriði í Jókernum breyttist algjörlega vegna tónlistar Hildar
Tónskáldið Hildur Guðnadóttir segir að leikstjóri Joker-myndarinnar hafi beðið hana um að þykja um vænt um Arthur Fleck, manninn sem verður að hinum brenglaða Jóker, þegar hún samdi tónlistina fyrir myndina.

Leikstjóri Jókersins útskýrir tvö stór atriði
Leikstjórinn Todd Phillips útskýrir opnunaratriðið í nýjustu mynd sinni Joker á YouTube-rás Vanity Fair en kvikmyndin var frumsýnd um helgina.

Hildur vann til Emmy-verðlauna
Hildur Guðnadóttir vann í nótt til sinna fyrstu Emmy-verðlauna fyrir tónlist sína í þáttunum Tsjernobyl.

Phoenix þakkaði Hildi umbreytingu Jókersins í myndinni
Bandaríski leikarinn Joaquin Phoenix segist aldrei hafa orðið fyrir jafnmiklum áhrifum af kvikmyndatónlist og í tilviki tónlistar Hildar Guðnadóttur, sem semur tónlistina í stórmyndinni The Joker.