Enski boltinn

„Ótrúlega stoltur af strákunum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Liverpool öðluðust mikla reynslu í kvöld
Leikmenn Liverpool öðluðust mikla reynslu í kvöld vísir/getty

Neil Critchley, þjálfari U23 liðs Liverpool, stýrði Liverpool í 8-liða úrslitum enska deildarbikarsins í fjarveru Jurgen Klopp í kvöld. Hann var gríðarstoltur af frammistöðu liðsins þrátt fyrir 5-0 tap.

Liverpool stillti upp sínu yngsta byrjunarliði í sögu félagsins gegn Aston Villa í kvöld því liðið á leik í undanúrslitum HM félagsliða á morgun og eru flestir af aðalliðsmönnum félagsins komnir til Katar.

„Mér fannst við vera stórkostlegir. Við vorum frábærir strax frá upphafi og áttum nokkur færi í byrjun leiksins,“ sagði Critchley eftir leikinn sem Villa vann 5-0.

„Við vorum mjög óheppnir að fá á okkur tvö mörk. Þetta var frábært kvöld og það vildi enginn að það myndi enda.“

„Leikmenn Villa báru sig frábærlega, Dean Smith og John Terry [þjálfarateymi Villa] komu inn í klefa til okkar eftir leikinn og sögðu strákunum að halda áfram og óskuðu þeim góðs gengis, þeir þurftu ekki að gera það. Ég og leikmennirnir munum muna þetta að eilífu.“

Ungir leikmenn Liverpool stóðu sig vel í leiknum og gefa úrslitin ekki alveg rétta mynd af leiknum, en reynsluleysi ungu strákana varð þeim að falli.

„Sumir leikmannanna sýndu að þeir eru með hæfileikana til þess að spila fyrir aðalliðið einn daginn. Þeir vita að þetta er bara einn hluti af ferðalginu.“

„Ég er ótrúlega stoltur af þeim,“ sagði Critchley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×