Skoðun

Fjölþætt verkefni - Ekkert fjármagn

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, hefur um margra ára skeið unnið í þágu dómþola og aðstandenda þeirra. Starfið hefur að langmestu leyti verið á herðum sjálfboðaliða og með vitundarvakningu í málaflokknum hefur verkefnum fjölgað gríðarlega milli ára og keyrt um þverbak í ár, á sama tíma og félagið er að laga sig að breyttu tekjumódeli en Afstaða reiðir sig nú eingöngu á styrki og rukkar engin félagsgjöld. En þrátt fyrir að félagið vinni stöðugt með skjólstæðinga sveitarfélaga landsins og sinni í raun störfum einnig fyrir Fangelsismálastofnun, ráðuneytin, skólakerfið og lögreglu þá styður hvorki ríkið né langflest sveitarfélög Afstöðu á nokkurn hátt. Og það þrátt fyrir síendurtekin og fögur fyrirheit.

Á það skal bent að Afstaða mætti auknum verkefnum með því að opna skrifstofu snemma árs 2018 þar sem aðstaða er fyrir viðtöl við sérfræðinga sem félagið hefur leitað til og að auki þrjú herbergi sem hugsuð voru sem neyðargistiaðstaða fyrir þá sem ekki höfðu þak yfir höfuðið að lokinni afplánun.

Á skrifstofunni hafa viðtöl verið veitt og unnið ötullega að ýmsum verkefnum sem snúa að réttindamálum fanga og aðstandenda þeirra. Aðstandendum sem leita til Afstöðu hefur sérstaklega fjölgað en hjá félaginu hljóta þeir ráðgjöf og fá upplýsingar um málefni ættingja í fangelsum. Þetta er þjónusta sem ekki annars er í boði. Þá heldur félagið út heimasíðu og er virkt á helstu samfélagsmiðlum þar sem fram koma mikilvægar upplýsingar fyrir þá sem vilja fylgjast með því helsta sem er að gerast í málaflokknum.

Fyrrverandi fangar hafa getað komið á skrifstofuna vegna atvinnumála en samstarf hefur verið við Vinnumálastofnun um aðstoð við atvinnuleit, starfsþjálfun og að finna námskeið við hæfi. Sama á við húsnæðismál en óskandi er að framhald verði á því starfi sem í bígerð er varðandi búsetuúrræði fyrrverandi fanga. Þar strandar á fjármögnun.

Lögmenn eiga flestir í góðu sambandi við Afstöðu og hefur félagið oft aðstoðað vegna mála sem snerta stjórnsýslu fangelsanna. Fréttamenn hringja stundum oft á dag og stundum því miður ekki nógu oft. Þá óska þingmenn stjórnarandstöðunnar - hverju sinni - reglulega eftir fundum til að fara yfir hvað þurfi að bæta og um hvað ætti að spyrja ráðherra.

Fulltrúar Afstöðu sækja fangelsin heim og vinna að brýnum verkefnum fyrir einstaka fanga og hópinn í heild sinni. Að sama skapi er fundað með Fangelsismálastjóra í hverjum mánuði, fulltrúum Verndar reglulega og einnig Rauða krossinum. Reynslan innan félagsins er dýrmæt og hagsmunaaðilar átta sig á því. Umboðsmaður Alþingis hefur sett sig í samband við félagið bæði vegna einstakra tilvika og frumkvæðisathugunar embættisins. Þá skilar Afstaða inn umsögnum og greinargerðum til Alþingis - og einstakra þingmanna - vegna frumvarpa og þingsályktunartillaga. Sú vinna hefur einmitt aukist verulega undanfarin misseri vegna breytinga á lögum sem tengjast fangelsismálum. Fulltrúar Afstöðu hafa einnig haldið fyrirlestra um fangelsismál við hin ýmsu tilefni, t.d. skólum, morgunverðafundum og við ráðstefnur.

Sem áður segir þá hefur þeim sem leita til Afstöðu fjölgað verulega. Fulltrúar félagsins eru hvern dag í samskiptum við fanga í afplánun og á sama tíma að vinna pappírsvinnu fyrir aðra. Og er þá ónefndur neyðarsími Afstöðu en þangað hringja fangar, fyrrverandi fangar og aðstandendur þegar þau þurfa, sérstaklega í angist, ringulreið og sjálfsvígshugleiðingum. Til þess að ná utan um öll verkefnin þarf fólk með hugsjón og innan Afstöðu starfar hugsjónarfólk. En það þarf einnig fjármagn og þar eiga ríki og sveitarfélög að gera betur. Gera eitthvað!

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi




Skoðun

Sjá meira


×