Skoðun

Inn­vígt og inn­múrað sím­tal

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði grein í Morgunblaðið á laugardaginn vegna fréttar RÚV um samskipti hans við tvo af dómurum Landsréttar á meðan meiðyrðamál umbjóðanda míns Benedikts Bogasonar á hendur honum var rekið fyrir réttinum.

Samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu gildir sú regla að málsmeðferð fyrir dómi á að vera réttlát. Til að tryggja það verður dómstóll að vera sjálfstæður og óvilhallur. Hér er ekki nóg að dómstóll sé það í raun heldur verður hann að gefa það til kynna á öllum stigum málsmeðferðar og með ytri ásýnd sinni. Þessum reglum er meðal annars ætlað að tryggja að málsaðilar sitji við sama borð og að þeim sé ekki mismunað við málsmeðferðina.

Með hliðsjón af þessum augljósu grundvallarreglum er ljóst að málsaðili setur sig ekki í samband við dómara til að ræða mál sitt einslega við hann.  Það kom því mjög á óvart þegar það kom í ljós fyrir tilviljun að Jón Steinar hafði rætt málið í einkasamtölum við Hervöru Þorvaldsdóttur, forseta Landsréttar og Kristbjörgu Stephensen, dómsformann í málinu. Enn sérkennilegra er að þessir tveir dómarar Landsréttar skuli hafa ákveðið að halda þessum samtölum leyndum fyrir mér og umbjóðanda mínum.

Ein af ástæðum þess að svona samskipti þekkjast ekki og eiga ekki að fara fram er að málsaðilinn sem ekki fær að taka þátt í þeim veit í raun og veru ekki hvað hefur farið á milli gagnaðila og dómara. Sú er einmitt raunin í þessu tilviki. Þó liggur fyrir að Jón Steinar ræddi um val á dómurum í einkasamtali við forseta Landsréttar áður en hún tók endanlega ákvörðun um hvaða dómarar skipuðu dóm í málinu. Það er einfaldlega staðreynd því sú ákvörðun var tekin í september 2019 en Jón Steinar segir sjálfur að hann hafi rætt við forseta Landsréttar í febrúar 2019.

Lögum samkvæmt á tilviljun að ráða því hvaða dómarar skipa dóm í einstökum málum í Landsrétti og úthlutar forseti Landsréttar málum til dómara réttarins. Eðli málsins samkvæmt eiga málsaðilar ekki að hafa nein áhrif á það hvað dómarar eru valdir til að dæma mál viðkomandi. Það er því ljóst að með innvígðu og innmúruðu símtali Jóns Steinars og Hervarar Þorvaldsdóttur, forseta Landsréttar um skipun dóms í málinu var brotið gegn þessum grundvallarreglum. Þess vegna var ákvörðun forseta Landsréttar um skipun dóms í málinu ólögmæt.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og lögmaður Benedikts Bogasonar.




Skoðun

Sjá meira


×