Sitjandi forseti Króatíu, Kolinda Grabar-Kitarovic og vinstri maðurinn Zoran Milanovic hlutu flest atkvæði í forsetakosningunum í Króatíu sem fram fóru í dag. Hvorugt náði þó hreinum meirihluta atkvæða og mun því fara fram seinni umferð kosninganna þar sem eingöngu þau Grabar-Kitarovic og Milanovic verða á kjörseðlinum.
Seinni umferðin mun fara fram þann 5. janúar næstkomandi.
AP greinir frá því að þegar að nær öll atkvæði hafi verið talin sé það ljóst að Milanovic hlýtur um 30% atkvæða gegn 27% sitjandi forseta.
Ellefu manns voru í framboði í þetta skipti en eingöngu var talið líklegt að þrír ættu raunhæfa möguleika á að ná kjöri, auk þeirra sem nefnd hafa verið var hægri-maðurinn og söngvarinn Miroslav Skoro talinn líklegur til árangurs. Hlaut hann 24% atkvæða.
Grabar-Kitarovic hefur setið í stóli forseta frá árinu 2015, á fyrsta ári stjórnartíðar hennar var mótframbjóðandinn Milanovic forsætisráðherra landsins.
Þrátt fyrir að Grabar-Kitarovic hafi hlotið færri atkvæði en Milanovic er staða hennar talin sterkari fyrir seinni umferðina. Spekingar telja að fylgismenn Skoro muni frekar leita til HDZ-flokksmannsins fyrrverandi heldur en jafnaðarmannsins Milanovic.
Embætti forseta Króatíu er ekki valdamikið og er fyrst og fremst táknrænt.

