Einn Norðmaður og fjórir Svíar voru á meðal þeirra 157 sem fórust í flugslysinu sem varð í Eþíópíu um helgina. Ríkisborgarar frá yfir þrjátíu löndum voru um borð í vélinni en staðfest hefur verið að enginn komst lífs af úr slysinu.
Flugvél eþíópíska flugfélagsins Ethiopian Airlines, ET302, var á leið frá Addis Ababa til kenísku höfuðborgarinnar Naíróbí þegar hún hrapaði skömmu eftir flugtak á sunnudagsmorgun.
Norðmaðurinn sem fórst hét Karoline Aadland, 28 ára starfsmaður Rauða krossins í Noregi. Rauði krossinn staðfesti í gær í yfirlýsingu að Aadland væri saknað og sagði jafnframt að fjölskylda hennar hefði verið látin vita.
Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá því að Aadland hafi verið á leið frá Kenía til Búrúndí á vegum Rauða krossins, þar sem hún starfaði í fjármáladeild. Hún hafði starfað við ýmis mannúðarmál á ferlinum, til að mynda fyrir Rauða krossinn og hjálparsamtökin Unicef. Þá hafði hún komið víða við vegna vinnu sinnar og náms, m.a. í Frakklandi, Kenía, Suður-Afríku og Malaví, en hún útskrifaðist úr viðskiptaháskólanum í Bergen í fyrra.
Þá hefur verið staðfest að fjórir sænskir ríkisborgarar voru um borð í vélinni en þeir hafa enn ekki verið nafngreindir. Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar kom á framfæri samúðarkveðjum til aðstandenda hinna látnu í yfirlýsingu í gær.
