Kjartan Henry Finnbogason var á skotskónum þegar Vejle tók á móti Sönderjyske í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni.
Liðin spila í öðrum af tveimur umspilsriðlum um áframhaldandi veru í úrvalsdeildinni. Vejle sat á botni fjögurra liða riðilsins fyrir leikinn.
Heimamenn byrjuðu hins vegar af krafti og komust yfir á fjórðu mínútu. Kjartan Henry bætti svo við öðru marki Veijle á 22. mínútu og Mads Greve skoraði þriðja mark Vejle áður en flautað var til hálfleiks.
Serhii Hryn skoraði fjórða mark heimamanna snemma í seinni hálfleik og var sigurinn orðinn nokkuð öruggur. Sönderjyske náði í sárabótamark á 85. mínútu en það dugði ekki til og mikilvægur 4-1 sigur Vejle í hús.
Eggert Gunnþór Jónsson kom inn á af varamannabekknum fyrir Sönderjyske þegar staðan var orðin 4-0.
Fótbolti