Sólarhringsstyrkur svifryks er nokkuð hár í dag. Klukkan 11 var sólarhringsmeðaltal svifryks við aðra loftgæðafarstöð Reykjavikur 53 míkrógrömm á rúmmetra. Verndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Vegna aðstæðna, vindur er hægur, götur eru þurrar og litlar líkur á úrkomu, er búist við því að ástandið vari einnig næstu daga og megi því sjá ryk þyrlast upp á umferðargötum Reykjavíkurborgar og svifryksstyrkur verði hár.
Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag verður hægt að sækja sér frían dagspassa í Strætó í Strætóappinu á morgun. Einnig er stefnt að því að rykbinda flesta þjóðvegi og stofnbrautir í þéttbýli Reykjavíkur á mánudag eða þriðjudag.
Eigendur bifreiða á nagladekkjum eru einnig hvattir til þess að skipta yfir á sumardekk en óheimilt er að aka um á nagladekkjum eftir 15.apríl.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mun halda áfram að fylgjast með loftgæðum borgarinnar og sendir viðvaranir ef við á. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is
Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlitsins eru nú staðsettar við Njörvasund/Sæbraut og Fossaleyni/Víkurveg.
Innlent