Enski boltinn

Guardiola: Kraftaverk að við eigum enn séns á fernunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola á hliðarlínunni í gær
Guardiola á hliðarlínunni í gær vísir/getty
Pep Guardiola er ánægður með að það er enn möguleiki á „kraftaverkinu“ að vinna fernuna eftir að Manchester City tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum á Englandi.

City vann 1-0 sigur á Brighton í undanúrslitunum á Wembley í gær, eina mark leiksins skoraði Gabriel Jesus.

„Það er nærri ómögulegt að vinna fernuna. Að við eigum enn möguleika á því á þessum stað á tímabilinu er kraftaverk út af fyrir sig,“ sagði Guardiola eftir leikinn.

City er nú þegar búið að vinna deildarbikarinn, þeir vinna Englandsmeistaratitilinn með því að vinna alla þá deildarleiki sem eftir eru og þeir mæta Tottenham í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Þegar þú nærð 100 stigum í deildinni þá er búist við því að enginn geti náð því aftur og tímabilið á eftir er tilhneiging að verða svolítið hrokafullur. En við erum enn hér og það er magnað hvað þessir leikmenn hafa gert til þessa.“

City mætir annað hvort Wolves eða Watford í úrslitaleiknum um enska bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×