Allar Boeing 737 Max-farþegaþotur voru kyrrsettar í mars í kjölfar þess að vél af þeirri gerð á vegum Ethiopian Airlines fórst með 157 manns um borð. Aðeins fimm mánuðum fyrr höfðu 189 manns farist með sams konar vél Lyon Air í Indónesíu.
Böndin hafa síðan beinst að sjálfstýringarhugbúnaði vélanna. Vísbendingar hafa fundist um að hugbúnaður sem á að koma í veg fyrir ofris hafi stýrt flugvélunum niður á við þannig að þær hröpuðu.
737 Max-vélarnar eru búnar tveimur svokölluðum afstöðuskynjurum. Sjálfstýringin reiðir sig hins vegar aðeins á gögn frá öðrum þeirra um afstöðu vélarinnar. Svo virðist sem að misræmi hafi verið í mælingum skynjaranna í tilfelli vélanna tveggja sem fórust.
Nú segja stjórnendur Boeing að fyrir mistök hafi viðvörunarmerki sem gefur flugmönnum til kynna að misræmi sé að milli skynjaranna ekki verið staðalbúnaður í 737 Max-vélunum heldur hafi það verið selt sem aukabúnaður.

Í kjölfarið lét Boeing gera innri úttekt og komast að þeirri niðurstöðu að það kæmi ekki niður á öryggi flugvélanna eða stjórn þeirra að viðvörunarmerkið vantaði. Þess vegna segist Boeing ekki hafa gert bandarískum flugmálayfirvöldum viðvart fyrr en eftir að indónesíska flugvélin fórst í október.
Flugmálastjórn Bandaríkjanna (FAA) segir að Boeing hafi ekki látið vita af málinu fyrr en um mánuði eftir hrap Lion Air-vélarinnar. Lítil hætta hafi verið á ferðum en að flugvélaframleiðandinn hafi getað hjálpað til við að eyða mögulegum ruglingi með því að láta vita fyrr.
Á fjórða hundrað 737 Max-véla hafa nú verið kyrrsettar í meira en mánuð. Boeing segir að von sé á hugbúnaðaruppfærslu til að ráða bót á vandanum þannig að hægt verði að koma þeim aftur í loftið í sumar. Uppfærslan á að draga úr vægi sjálfstýringarinnar og mata hana á gögnum frá báðum afstöðuskynjurunum. Þá eigi viðvörunarmerkið einnig að vera aðgengilegt í öllum vélunum.