Skoðun

Eru ís­lensk heimili farin að dempa hag­sveifluna?

Jón Bjarki Bentsson skrifar
Neysla íslenskra heimila mun væntanlega mýkja hagsveifluna talsvert á komandi fjórðungum öfugt við það sem oftast hefur verið í íslensku hagkerfi. Er það bæði vegna þess að almenn ráðdeild íslenskra neytenda í uppsveiflunni gerir þeim flestum mögulegt að halda sínu striki í neysluútgjöldum og eins beinist neyslan í ríkari mæli að innlendum vörum og þjónustu.

Skera niður erlendu neysluna en bæta við sig innanlands

Kortaveltutölur Seðlabankans sýna áhugaverðan mun á kortaveltu einstaklinga eftir því hvort kortin voru straujuð innan landsteinanna eða erlendis. Þannig dróst erlend kortavelta að jafnaði saman um rúma prósentu að raungildi milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins, en innlend kortavelta jókst hins vegar um rúmt prósent á sama tíma. Aðrir hagvísar ríma við þessa þróun. Brottförum Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fækkaði þannig um ríflega 7% á fyrstu þremur fjórðungum ársins frá sama tíma í fyrra eftir öran vöxt sex árin þar á undan. Tölur um innfluttar neysluvörur segja áþekka sögu. Til að mynda var fjórðungi minna flutt inn af bifreiðum til einkanota á fyrstu níu mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra og innflutningur á fatnaði minnkaði um 9% á sama kvarða.

Vitaskuld hafa þættir á borð við einmuna veðurblíðu í sumar eftir rigningarsumarið 2018 og hraða endurnýjun bílaflotans síðustu ár einnig áhrif. Nærtækt er þó að draga þá ályktun að breytingin á neyslumynstrinu tengist einnig lægra gengi krónu og meiri varfærni heimilanna í stórum neysluákvörðunum á borð við utanlandsferðir og bifreiðakaup eftir að blikur jukust á lofti um efnahagshorfur hérlendis.



Heimilin hagsýnni  í síðustu uppsveiflu

Einkaneysla hefur oft og tíðum aukið á hagsveifluna hér á landi þar sem íslensk heimili hafa gjarnan gengið býsna hratt um gleðinnar dyr í uppsveiflum og þurft að taka nokkuð harkalega í handbremsuna hvað heimilisútgjöld varðar þegar harðnaði á dalnum. Þetta má til að mynda bæði sjá í efnahagskreppunni í lok síðasta áratugar og einnig í því bakslagi sem varð í vexti í upphafi aldarinnar. Undanfarin ár hafa heimilin hins vegar sýnt talsvert meiri fyrirhyggju í neyslunni og hefur hún í stórum dráttum aukist í allgóðu samræmi við vaxandi kaupmátt upp á síðkastið. Fyrir bragðið hafa íslenskir neytendur meira svigrúm en áður til að halda sínu striki þótt tímabundið blási á móti í efnahagslífinu og á vinnumarkaði.

Þegar þetta tvennt leggst á eitt, að heimilin þurfa síður að herða beltið í neysluútgjöldum þrátt fyrir tímabundið minni efnahagsumsvif og að þau kjósa í auknum mæli innlenda vöru og þjónustu, verða áhrifin þau að innlendir framleiðendur og þjónustufyrirtæki þurfa minna að draga saman seglin en ella. Það minnkar svo aftur hættuna á vítahring aukins atvinnuleysis og minnkandi innlendrar eftirspurnar og eykur líkur á því að efnahagslífið komist hraðar en ella á réttan kjöl eftir þann skell sem ferðaþjónustan varð fyrir á fyrri hluta ársins.

Höfundur er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.




Skoðun

Sjá meira


×