Þann 12. september síðastliðinn voru tveir erlendir karlmenn handteknir í Leifsstöð fyrir að hafa reynt að flytja fimm og hálft kíló af kókaíni til landsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu var efnið falið í þremur ferðatöskum sem mennirnir voru með. Þeir ásamt sex örðum eru í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum fyrir kókaínsmygl.
„Yfir heildina eru átta í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Í þessum þremur málum sem eru til rannsóknar höfum við lagt hald á sjö kíló af kókaíni,“ segir Jón Halldór en auk mannanna tveggja sem teknir voru með fimm og hálft kíló var íslensk kona á fertugsaldri úrskurðuð í gæsluvarðhald í síðustu viku en hún var stöðvuð í flugstöðinni með hálft kíló af kókaíni, sem var falið í fimmtíu pakkningum í nærfötum hennar.
Nokkrum dögum áður var íslenskur karlmaður, sem hafði komið frá Barcelona á Spáni, stöðvaður á flugvellinum með rúmt kíló af kókaíni í ferðatöskunni og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun.
Þá eru fjórir aðrir í gæsluvarðhaldi vegna kókaínsmygsl, frá því í síðasta mánuði.
„Það sem af er ári höfum við lagt hald á 38 kíló og þar af eru 28 kíló af kókaíni,“ segir Jón Halldór sem hefur áhyggjur af þróuninni.
„Það hlýtur að vera markaður fyrir þetta fyrst menn eru að reyna þetta í svona miklu magni, það liggir fyrir,“ segir Jón Halldór.