Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin eru komnir í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í körfubolta eftir sigur á Mitteldeutscher, 82-77, á heimavelli í dag.
Martin stóð fyrir sínu í leiknum þótt hann hafi aðeins spilað tæpar 17 mínútur.
Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði sjö stig, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Auk Alba Berlin eru Brose Bamberg og Ulm komin í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar. Síðar í dag ræðst það svo hvort Bonn eða Oldenburg verði fjórða liðið til að komast í undanúrslit.
Alba Berlin komst í bikarúrslit á síðasta tímabili en tapaði fyrir Brose Bamberg með minnsta mun, 83-82.

