Kjarasamningar á almennum markaði losnuðu um áramótin og fjögur stéttarfélög vísuðu deilu sinni við Samtök atvinnulífsins (SA) til ríkissáttasemjara; VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur.
Í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sagði Halldór Benjamín að þó að kjaraviðræður væru tafsamar og flóknar leyfði hann sér að líta svo á að glasið væri hálffullt. Viðræðurnar séu á betri stað en margir óttuðust.
„Ég bind vonir við það að það sé farið að síga á seinni hluta þessara viðræðna. Ég vil vona það og ég trúi því,“ sagði hann.
Spurður út í viðræðurnar hjá ríkissáttasemjara viðurkenndi Halldór Benjamín að þær væru skemmra á veg komnar en hinar sem fara fram án atbeina sáttasemjara.
„Það er einhver hreyfing á málunum en ég ætla ekki að ganga of langt og segja að þessar viðræður hjá ríkissáttasemjara séu komnar langt, þær eru komnar skemur en maður hefði kosið,“ sagði Halldór Benjamín.
Það að viðræðurnar séu nú háðar dagskrárvaldi ríkissáttasemjara hefur hægt verulega á þeim, að mati framkvæmdastjórans sem segist aldrei hafa verið talsmaður þess að fara með viðræðurnar þangað. Eðlilegra hefði verið að halda áfram í þeim takti sem samninganefndir SA og félaganna hefðu unnið eftir áður.
Opin fyrir innspýtingu í barnabótakerfið
Tillögur ASÍ um fjölgun skattþrepa bárust einnig til tals í þættinum. Halldór Benjamín sagðist ekki tilbúinn að útfæra skattatillögur ASÍ eins og þær liggja fyrir. Hann væri ekki talsmaður þess að umbylta stórum kerfum heldur að þróa þau jafnt og þétt áfram. SA væru þó reiðubúin að koma að borðinu um þróun á núverandi skattkerfi.Sérstaklega nefndi Halldór Benjamín barnabótakerfið sem hann telur skilvirka leið til að koma fjármunum í gegnum tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins til hóps fólks sem samfélagsleg sátt ríki um að eigi að njóta aðstoðar, tiltölulega ungs fólks sem er að koma upp fjölskyldu.
„Ég get séð fyrir mér að með því að spýta í barnabótakerfið getum við náð til mjög stórs hóps manna sem eru undir í þessum kjarasamningsviðræðum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Þetta væri til dæmis leið sem Samtök atvinnulífsins myndu styðja,“ sagði hann.