Erlent

Látinn eftir skot­á­rás við skemmti­stað í Mel­bour­ne

Atli Ísleifsson skrifar
Hrina skotárása virðist ganga yfir borgina Melbourne.
Hrina skotárása virðist ganga yfir borgina Melbourne. EPA
Einn er látinn og annar í lífshættu eftir skotárás fyrir utan skemmtistað í áströlsku borginni Melbourne á fjórða tímanum í nótt að staðartíma.

BBC segir frá því að árásin hafi verið gerð fyrir utan skemmtistaðinn Love Machine í miðborginni. Voru fjórir fluttir á sjúkrahús – þrír dyraverðir og einn sem stóð í röð fyrir utan staðinn.

Maðurinn sem lést var 37 ára gamall dyravörður. Einn þeirra sem liggur á spítala er þungt haldinn.

Lögreglan á staðnum rannsakar tildrög árásarinnar en árásarmaðurinn skaut á fólkið úr bíl þegar hann ók framhjá. Ekkert bendi til að stöddu að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Árásarmannsins er enn leitað.

Hrina skotárása virðist ganga yfir borgina, en þetta er fimmta skotárásin á stuttum tíma. AP fréttaveitan hefur eftir lögreglu á tvær árásanna tengjast uppgjöri á milli glæpagengja í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×