Erlent

Bandaríkin tilbúin að semja við Bretland eftir Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með þeim Raab (t.v.) og Pompeo (t.h.) á blaðamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu í dag.
Vel fór á með þeim Raab (t.v.) og Pompeo (t.h.) á blaðamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu í dag. AP/Susan Walsh
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir bandarísk stjórnvöld tilbúin að skrifa undir viðskiptasamning við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu sem er fyrirhuguð í haust. Dominic Raab, nýr utanríkisráðherra Bretlands, hitti Donald Trump forseta í fyrstu opinberu heimsókn sinni til Washington-borgar í gær.

Eins og sakir standa eiga Bretar að ganga úr Evrópusambandinu 31. október. Raab sagðist vonast eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin eins fljótt og hægt er eftir útgönguna. Trump hefði gert honum ljóst að vilji hans stæði til þess að gera metnaðarfullan samninga, að því er segir í frétt The Guardian.

Eftir fund þeirra Raab sagði Pompeo að Bandaríkjastjórn styddi fullvalda ákvörðun Bretlands um að yfirgefa Evrópusambandið.

„Þá verðum við tilbúin við þröskuldinn með penna í hönd, tilbúin að skrifa undir nýjan fríverslunarsamning eins fljótt og hægt er,“ sagði Pompeo sem treystir því að útgangan hafi ekki áhrif á friðarsamkomulagið á Norður-Írlandi.

Eitt helsta ágreiningsefnið um útgöngu Breta úr sambandinu hefur snúist um hvað eigi að gera með mörk Írlands, sem verður áfram í sambandinu, og Norður-Írlands, sem tilheyrir Bretlandi. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagst vilja losna við svonefnda baktryggingu úr útgöngusamningnum við ESB. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að koma þurfi upp hefðbundnu landamæra- og tollaeftirliti á Írlandi eftir útgönguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×