Handbolti

Handbolti vinsælasta íþróttasjónvarpið í Þýskalandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leiknum sem var vinsælasti kappleikur ársins í þýsku sjónvarpi.
Úr leiknum sem var vinsælasti kappleikur ársins í þýsku sjónvarpi. vísir/getty

Fótbolti er nánast alltaf vinsælasta íþróttasjónvarpsefni Þýskalands, sem og víðar, en sú var ekki raunin á árinu sem er að líða.

Vinsælasta íþróttasjónvarpsefni ársins var undanúrslitaleikur Þýskalands og Noregs á HM í handbolta sem fór fram í Þýskalandi og Danmörku í janúar.

Alls horfðu 11.901 milljón manns á leikinn í sjónvarpinu sem því miður fyrir Þjóðverja tapaðist, 25-31. Í öðru sæti þetta árið var knattspyrnulandsleikur Þýskalands og Hollands sem 11.836 milljónir sáu.

Þetta er sögulegur áfangi hjá þýskum handbolta sem er enn á uppleið í heimalandinu. Annars var mjög mikið áhorf almennt á HM í Þýskalandi því leikur Þjóðverja gegn Króötum á mótinu var þriðji vinsælasti sjónvarpsviðburðurinn í ár með rúmlega 10 milljón áhorf. Forráðamenn þýska boltans geta því skálað fyrir góðu ári.

„Þessar tölur sýna okkur svart á hvítu það sem ég hef alltaf sagt. Handbolti er næstvinsælasta boltaíþróttin í Þýskalandi á eftir fótboltanum,“ sagði Bob Hanning, varaforseti þýska handknattleikssambandsins.

„Ef við höldum áfram að leggja hart að okkur halda þessar tölur áfram að fara upp. Við erum samt bara rétt að byrja og ég tel okkur eiga mikið inni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×