Skoðun

Rétt for­gangs­röðun

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar
Í gær lauk umræðu um fjárlög næsta árs. Útgjöld ríkissjóðs verða um eitt þúsund milljarðar á næsta ári. En síðan þessi ríkisstjórn tók við hafa innviðir samfélagsins verið styrktir með því að bæti við þá fjármagni.

Hlutverk stjórnvalda er að gefa öllum jöfn tækifæri og bæta lífskjör landsmanna. Fyrir stuttu birtust niðurstöður úr lífskjararannsókn Hagstofunnar. Þar kemur skýrt fram að sú stefna stjórnvalda að efla félagslega húsnæðiskerfið er rétt forgangsröðun. Þar kemur fram að fimmta hvert heimili á leigumarkaði er undir lágtekjumörkum en staða þeirra sem búa í eigin húsnæði er töluvert betri. Það er því ljóst að það er rétt forgangsröðun að auka framlög til stofnstyrkja í almenna íbúðakerfinu, samhliða því að bæta stöðu leigjenda gagnvart leigusölum.

Aðgerðir þessarar ríkisstjórnar frá 2017 hafa og munu auka ráðstöfunartekjur þessa hóps. Ef tekið er dæmi af hjónum með 2 börn, annað undir 7 ára og 360 þúsund í tekjur hvort um sig þá munu ráðstöfunartekjur þeirra árið 2021 hafa aukist um 480 þús. krónur á ári miðað við óbreytt kerfi frá árinu 2017 ef teknar eru saman umbætur á barnabótakerfinu og skattkerfisbreytingar. Skattkerfisbreytingarnar eru hluti af Lífskjarasamningunum og koma að nýju á fót þriggja þrepa skattkerfi, með nýju grunnþrepi sem dregur úr skattbyrði tekjulægsta hópsins og eykur með því ráðstöfunartekjur hans.

Lenging fæðingarorlofs

Þetta er þó ekki það eina sem mun bæta stöðu barnafjölskyldna í landinu, en fyrsta umræða um lengingu fæðingarorlofs fór fram á Alþingi í gær. Til stendur að lengja fæðingarorlofið í tíu mánuði á næsta ári og í 12 mánuði árið 2021. Að brúa bilið milli loka fæðingarorlofs og leikskóla er eitt af því sem mestu máli skiptir til að bæta kjör ungra barnafjölskyldna. Að auki er það mikilvægt skref til að draga úr launamun kynjanna.

Alltaf er þó verk að vinna þegar kemur að því hvernig við rekum samfélagið okkar. Þar ætlum við Vinstri græn að halda ódeig áfram.

Höfundur er þingkona Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×