Arnar Grétarsson hefur verið látinn taka pokann sinn hjá belgíska B-deildarliðinu Roeselare.
Báðir íslensku þjálfararnir sem hófu tímabilið í belgísku B-deildinni hafa því verið látnir fara. Stefán Gíslason var rekinn frá Lommel um miðjan október.
Arnar var ráðinn þjálfari Roeselare í byrjun ágúst. Þegar hann kom til félagsins voru aðeins 14 leikmenn á samningi hjá því og fjárhagsstaðan slæm.
Roeselare er á botni belgísku B-deildarinnar með tólf stig eftir 16 leiki.
Arnar var áður þjálfari Breiðabliks og yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu og Club Brugge.
