Erlent

Sat föst í lyftu milljarðamærings alla helgina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heimili mannsins á Manhattan, þar sem konan festist.
Heimili mannsins á Manhattan, þar sem konan festist. Google Maps
Aðstoðarkonu bandarísks bankastjóra var í gær bjargað úr lyftu á heimili mannsins á Manhattan í New York. Konan, sem sögð er vera hin 53 ára gamla Marites Fortaliza, steig inn í lyftuna á föstudagskvöld og hafði hún því setið þar föst í rúmlega tvo sólarhringa áður en slökkviliðsmenn komu henni til bjargar í gærmorgun.

Í yfirlýsingu sem fjölskylda konunnar sendi frá sér og vísað er til á vef Associated Press var konunni komið undir læknishendur. Þrátt fyrir að hafa hvorki fengið vott né þurrt alla helgina er Fortaliza sögð ágætlega haldin.

Sem fyrr segir varð óhappið á heimili bankastjóra, Warren Stephens, en konan hefur verið honum og fjölskyldu hans innan handar síðastliðin 18 ár.

Fjölskyldan hafði farið saman í helgarfrí og var því enginn annar á heimilinu þegar Fortaliza festist í lyftunni, á milli annarrar og þriðju hæðar hússins. Þrátt fyrir að tildrög lyftubilunarinnar séu enn til rannsóknar er talið að bankastjórinn hafi trassað að láta umrædda lyftu gangast undir reglubundna skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×