Enski boltinn

Særðir City-menn mæta Spurs í þriðja sinn á tólf dögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Llorente skorar markið sem tryggði Tottenham sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Llorente skorar markið sem tryggði Tottenham sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. vísir/getty
Manchester City getur komist á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á Tottenham í fyrsta leik dagsins. Þetta er þriðji leikur liðanna á aðeins tólf dögum.

City á harma að hefna gegn Spurs eftir að Lundúnaliðið sló Englandsmeistarana úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni.

City vann leikinn á Etihad á miðvikudaginn, 4-3, en Spurs vann fyrri leikinn, 1-0, og fór áfram í undanúrslit á útivallarmörkum.

City hefur unnið níu deildarleiki í röð og vinni liðið Spurs á Etihad kemst það á toppinn, allavega fram til morguns þegar Liverpool sækir Cardiff City heim.

Fimm aðrir leikir fara fram í dag. Brighton, sem er í mikilli fallhættu, tekur á móti Wolves sem er í baráttu um Evrópusæti.

Leicester City, sem hefur verið á góðri siglingu eftir að Brendan Rodgers tók við liðinu, sækir West Ham heim. Leicester er í Evrópubaráttu en West Ham siglir lygnan sjó.

Liðin sem eru fallin, Fulham og Huddersfield Town, verða bæði í eldlínunni. Fulham mætir Bournemouth á útivelli á meðan Huddersfield fær Watford í heimsókn.

Í síðasta leik dagsins mætast svo Newcastle United og Southampton á St. James' Park. Bæði lið eru svo gott sem búin að bjarga sér frá falli eftir fínt gengi að undanförnu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×