Erlent

Sprengiefni fannst á þremur fjölförnum stöðum í Lundúnum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þrjú umslög sem voru troðfull af sprengiefni fundust á fjölförnum stöðum í Lundúnum í dag.
Þrjú umslög sem voru troðfull af sprengiefni fundust á fjölförnum stöðum í Lundúnum í dag.
Breska hryðjuverkalögreglan rannsakar nú sprengiefni sem fannst í þremur umslögum á Heathrow-flugvellinum, London City-flugvellinum og Waterloo-lestarstöðinni. Lögregla var kölluð til laust fyrir klukkan tíu í morgun að staðartíma.

Hryðjuverkalögreglan telur að málin þrjú séu tengd en rannsóknin er þó á frumstigi að því er fréttastofa BBC greinir frá.

Sprengiefnið fannst í þremur gulum umslögum sem öll voru A4 að stærð en talið er að umslögin hefðu verið póstlögð frá Írlandi og þá er talið að minnsta kosti eitt þeirra hafi verið póstlagt í Dyflinni, höfuðborg Írlands.

Rýma þurfti hluta flugstöðvarbyggingarinnar á Heathrow þegar umslagið með sprengiefninu fannst en það kviknaði í einu þeirra þegar flugvallarstarfsmaður opnaði það.

Ekki er talið að sprengiefnið hefði getað valdið öflugum sprengingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×