Lögmaður Alexei Navalní, leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, hefur sent yfirvöldum formlega kvörtun um að eitrað hafi verið fyrir Navalní í fangelsi á sunnudag. Navalní var fluttur á sjúkrahús í skyndi þegar hann sýndi einkenni um bráðaofnæmi.
Rússnesk yfirvöld handtóku Navalní á miðvikudag í síðustu viku fyrir að hvetja til mótmæla í Moskvu um síðustu helgi sem ekki hafði verið veitt leyfi fyrir. Hann var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi. Á annað þúsund mótmælendur voru handteknir í borginni um helgina.
Navalní var fluttur á fangelsissjúkrahús á sunnudag með verulega bólgu í andliti og útbrot. Hann var útskrifaður á mánudag og sendur aftur í fangaklefa sinn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Algengt er að stjórnarandstæðingar og blaðamenn séu ráðnir af dögum í Rússlandi. Stjórnvöld í Kreml hafa einnig verið sökuð um að hafa eitrað fyrir andstæðingum sínum erlendis, þar á meðal fyrrverandi njósnaranum Sergei Skrípal og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi í mars í fyrra.
