North greindi frá ákvörðun sinni í bréfi sem lesið var upp á aðalþingi samtakanna í Indianapolis í dag. Í bréfinu, sem einn stjórnarmanna NRA er sagður hafa kynnt fyrir viðstöddum, segist North hafa vonast til að geta boðið sig fram til endurkjörs, en kjörtímabili hans lýkur á mánudag.
„Mér hefur við tjáð að af því verði hins vegar ekki,“ skrifar North.
Mikil ólga hefur verið í framvarðasveit NRA á síðustu dögum. Framkvæmdastjóri samtakanna, Wayne LaPierre, sendi bréf til stjórnarmanna NRA á fimmtudag þar sem hann sakaði fyrrnefndan North um að reyna að setja sig af.

North svaraði skrifum framkvæmdastjórans í gær. Í bréfi sem hann sendi til sömu stjórnarmanna ver hann ákvarðanir sínar og segir þær til þess fallnar að styrkja ímynd NRA. Þá ætli hann sér að stofna nefnd sem muni taka fjármál samtakanna til skoðunar.
Ekki virðist vera vanþörf á ef marka má fréttaflutning bandarískra miðla. Þannig á ríkissaksóknari New York-ríkis að hafa hafið rannsókn á undanþágum NRA frá skatti og krafist gagna sem varpa ljósi á fjárhagsstöðu samtakanna.
Meðlimir bandarísku skotvopnasamtakanna eru rúmlega 5 milljón talsins og eru þau án efa öflugustu talsmenn síns málstaðar vestanhafs. Samtökin hafa unnið náið með þingmönnum á síðustu áratugum og eru þau talin hafa leikið lykilhlutverk í baráttunni gegn strangari skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum.