Enski boltinn

Gylfi þarf að spila með Everton í fjögur ár til viðbótar til að spila á nýja leikvanginum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ætli Gylfi Þór Sigurðsson nái að fagna markið fyrir Everton á Bryggjuvöllum?
Ætli Gylfi Þór Sigurðsson nái að fagna markið fyrir Everton á Bryggjuvöllum? Getty/Clive Brunskill
Everton er stórhuga þessi misserin en félagið tilkynnti í gær fyrirhugaðar framkvæmdir við nýjan glæsilegan leikvang við hafnarsvæðið í Liverpool.

Samkvæmt þessum plönum mun Everton yfirgefa Goodison Park vorið 2023 og flytja á nýjan 52 þúsund manna leikvang á Bramley Moore bryggjunni.

Hönnun arkitektanna miðast við að láta líta svo út eins og leikvangurinn hafi risið upp úr bryggjunni. Það mun kosta 500 milljónir punda, 76 milljarða íslenskra króna, að byggja þennan nýja leikvang.





Everton á eftir að fá allt samþykkt en stefnir að því að öll leyfi verði klár á þessu ári eða því næsta. Það verður síðan möguleiki á að stækka völlinn upp í 62 þúsund manna völl í framtíðinni.

Meðal fyrirmynda við hönnum nýja leikvangsins er bratta stúkan á heimavelli Borussia Dortmund en þar mynda stuðningsmenn Dortmund „gulan vegg“ fyrir aftan annað markið. Everton vonast til að sú þrettán þúsund manna stúka fyrir aftan annað markið geti orðið að „bláu öldunni“ eins og þeir kölluðu hana í kynningunni.

Goodison Park verður rifinn um leið og nýi leikvangurinn er klár en Everton ætlar þó ekki að selja landið sem Guttavöllur stendur á. Þar mun verða opinbert svæði og svo verður einnig sett upp minnisvarði um 127 ára sögu Goodison Park.

Bygging nýja vallarins mun taka þrjú ár og Everton ætti að geta byrjað að spila þar á 2023-24 tímabilinu. Þetta þýðir að Gylfi Þór Sigurðsson þarf að spila í fjögur ár til viðbótar með Everton ætli hann að spila á Bryggjuvöllum. Núverandi samningur Gylfa við Everton rennur út í lok júní árið 2022.

Gylfi heldur upp á þrítugsafmælið sitt í september og verður því á 34 ára aldursári þegar Everton byrjar að spila á Bryggjuvöllum.

Hér fyrir neðan má sjá kynningu Everton á Bramley Moore leikvangi framtíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×