Viðskipti innlent

Klaufavilla í frumvarpi sem gerir erlenda netverslun dýrari

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem heimilar Íslandspósti ohf. (ÍSP) að velta kostnaði af erlendum sendingum yfir á neytendur. Klaufalega villu er að finna í frumvarpinu.

Samkvæmt frumvarpinu munu ákvæði landslaga ganga framar alþjóðapóstsamningi UPU en samkvæmt honum er kveðið á um svonefnd endastöðvagjöld. Brot rekstrarvanda ÍSP hefur mátt rekja til þeirra vegna fjölda sendinga frá Asíu. Þó er vert að taka fram að svo virðist sem tap hafi verið á öllum erlendum sendingum sem er vísbending um að erlend póstþjónustufyrirtæki viðurkenni ekki kostnaðargrunn dreifikerfis ÍSP.

Undanfarin ár hefur ÍSP tekið á sig kostnað vegna erlendra sendinga en að mati fyrirtækisins hefur það niðurgreitt sendingar frá útlöndum um hátt í þrjá milljarða undanfarin ár. Frumvarpinu er ætlað að „taka af öll tvímæli um að íslensk lög gildi framar alþjóðasamningum á þessu sviði“. Fyrirspurn blaðsins um það hvort ÍSP hafi verið heimilt í tíð núgildandi laga að velta þessum kostnaði yfir á neytendur hefur ekki verið svarað.

Verði frumvarpið að lögum fyrir maí er gert ráð fyrir að ÍSP geti fengið inn 400 milljónir króna strax á árinu 2019 frá neytendum. Lagt er til að lögin taki gildi um leið og þau hafa verið birt að undanskilinni fimmtu grein þeirra en hún tæki gildi fjórum vikum síðar svo unnt sé að kynna viðskiptavinum breytta skilmála.

Sú grein varðar að vísu umsókn í jöfnunarsjóð alþjónustu og má telja víst að þar hafi átt að vísa til fjórðu greinar er lýtur að breyttri verðskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×