Tíska og hönnun

Meghan vildi freknur á forsíðu Vogue

Sylvía Hall skrifar
Hertogaynjan lagði áherslu á áhrifamiklar konur.
Hertogaynjan lagði áherslu á áhrifamiklar konur. Vísir/Getty

Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, er gestaritstjóri septembertölublaðs Vogue. Er hún þar með fyrsti gestaritstjóri septemberblaðsins í 103 ára sögu þess.



Hertogaynjan var ófeimin við að láta til sín taka í ferlinu og tryggði að hennar sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi. Í stað þess að vera sjálf á forsíðunni valdi hún að láta sterkar og áhrifamiklar konur prýða forsíðuna undir yfirskriftinni „afl breytinga“.



Á meðal þeirra sem prýða forsíðuna í september er ungi loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg, nýsjálenski forsætisráðherrann Jacinda Ardern, Salma Hayek, kvenréttindabaráttukonan Jameela Jamil og LBGTQ+ aðgerðasinninn Laverne Cox.



Markle valdi ljósmyndarann Peter Lindbergh í verkefnið og segir hann samstarfið hafa gengið vel fyrir sig, en þau höfðu áður starfað saman þegar Markle sjálf var á forsíðunni árið 2016. Eina ósk hennar varðandi forsíðuna var einföld: Hún vildi sjá freknur.



„Það var eins og að hlaupa í gegnum opnar dyr fyrir mig. Ég elska freknur,“ sagði Lindberg í samtali við Vogue.



Meghan hefur unnið að verkefninu í sjö mánuði samhliða því að sinna nýfæddum syni þeirra hertogahjónanna, Archie, sem fæddist í maí síðastliðnum. Hún segist vilja nýta þetta tækifæri og beina sjónum fólks að þeim „gildum, málstöðum og einstaklingum sem hafa áhrif á heiminn í dag“ í mest lesna tölublaði stærsta tískutímarits heims.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.