Alfreð Finnbogason skoraði annað mark Augsburg sem tapaði fyrir Schalke á heimavelli í þýsku Bundesligunni í fótbolta í kvöld.
Heimaenn í Augsburg komust yfir þegar langt var liðið á fyrri hálfleikinn en í uppbótartíma hans jöfnuðu gestirnir þegar Stephan Lichtsteiner varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark.
Alfreð kom Augsburg yfir á nýjan leik þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 60. mínútu. Alfreð fékk spyrnuna sjálfur, hann reyndi fyrirgjöf inn í teiginn sem fór í hendina á varnarmanni Schalke og dómarinn gat ekki annað en dæmt víti.
Gestirnir jöfnuðu metin aftur á 71. mínútu þegar Ozan Kabak skallaði aukaspyrnu Daniel Caligiuri í netið. Þeir komust svo yfir á 82. mínútu með marki frá Amine Harit og þar við sat. Lokatölur 3-2 fyrir Schalke.
Augsburg er í fallsæti í þýsku deildinni með aðeins einn sigur úr fyrstu 10 leikjum sínum.

