Umfjöllun: Ísland - Portúgal 96-68 │Stórsigur í Höllinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elvar Már Friðriksson sækir að körfunni
Elvar Már Friðriksson sækir að körfunni vísir/DANÍEL
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta þurfti sigur gegn Portúgal í Laugardalshöll í dag til þess að halda voninni um sæti í undankeppni Eurobasket 2021 á lofti. Liðið skilaði svo sannarlega sínu og rúmlega það, Ísland vann frábæran 96-68 sigur.

Eftir smá hiksta í upphafi leiks fór íslenska liðið að stíga fram úr og var með tíu stiga forskot, 23-13, eftir fyrsta leikhluta. Hægt og rólega byggði Ísland upp forystuna og gátu þeir 1700 stuðningsmenn sem mættu í Laugardalshöll verið þokkalega sáttir með stöðuna í hálfleik, Ísland 44-30 yfir.

Í upphafi seinni hálfleiks tók íslenska liðið sterkt áhlaup undir forystu Jóns Axels Guðmundssonar og drap í öllum vonarglætum sem Portúgalarnir gætu hafa haft. Munurinn fór upp í þrjátíu stig og ljóst að íslenskur sigur yrði niðurstaðan.

Eins og vill gerast þegar munurinn er orðinn svona mikill þá var aðeins minni kraftur í íslensku leikmönnunum í fjórða leikhluta og það voru Portúgalar sem áttu síðustu körfuna en það kom ekki að sök, öruggur 28 stiga sigur varð niðurstaðan.

Ægir Þór Steinarssonvísir/daníel
Í fyrri hálfleik var alltaf ákveðin varnaglatilfinning í maganum, þrátt fyrir að íslenska liðið væri betra þá var alltaf möguleiki á því að það kæmi slæmur kafli sem Portúgalarnir myndu nýta sér. Slæmi kaflinn kom hins vegar aldrei.

Vissulega voru nokkrar sóknir sem fóru í súginn, stundum tvær, þrjár í röð, en alltaf fannst manni íslenska liðið sterkari aðilinn og það var mjög sjaldan sem Portúgal náði að refsa Íslendingum fyrir að nýta ekki sóknirnar.

Á köflum spilaði Ísland frábæran sóknarleik þar sem boltinn flaut á milli manna og það var fjöldi af þristum sem féllu í Laugardalshöll í dag. Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, hafði orð á því eftir leik að þetta væri með betri leikjum sem Ísland hefur spilað síðustu ár og ég held það sé vel hægt að taka undir það hjá honum.



Tryggvi Snær Hlinasonvísir/daníel
Jón Axel Guðmundsson er heldur betur búinn að stimpla sig inn í þetta landslið. Annan leikinn í röð er hann stigahæstur, hann var frábær í dag og á kafla í þriðja leikhluta hefði hann líklega getað kastað boltanum í átt að körfunni án þess að horfa og boltinn hefði farið niður.

Þá var Hlynur Bæringsson einnig frábær í dag, hann var aðeins stigi á eftir Jóni Axeli ásamt því að taka sjö fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. Honum fannst kannski hálf glatað að snúa aftur eftir að hafa verið búinn að hætta, fá kveðjuleik og allt húllumhæið, en ég held að öll þjóðin ætti að fyrirgefa honum það og þakka honum kærlega fyrir að verða náunginn sem hættir við að hætta.

Flest allir aðrir í íslenska liðinu áttu mjög góða kafla og erfitt að finna einhvern sem átti ekki góðan dag í dag.

Ísland heldur nú út til Sviss þar sem liðið þarf helst að vinna heimamenn til þess að tryggja sæti sitt í undankeppninni. Tap gæti orðið í lagi, sérstaklega í ljós þess hve stór sigurinn var, en sá reikningur er of flókinn fyrir mig að gera hér og nú. Stefnan er sett á sigur og þessi frammistaða gefur svo sannarlega von um að það náist.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira