Formaður Dýraverndunarsamtakanna í Hafnarfirði, segir vel hafa gengið að fanga slasaða álft við Urriðavatn fyrir hádegi í dag. Fuglinn var með fasta Red Bull dós á goggi sínum og hefur líklega haft í um tvær vikur. Áminning til fólks um að ganga vel um og hætta að henda rusli segir hjúkrunarfræðingur og íbúi í hverfinu.
Linda Hrönn Eggertsdóttir vakti athygli á því í Facebook-hópnum Garðabæ um helgina að álftin hefði verið á vappi í hverfinu og íbúar áhyggjufullir. Sagðist Linda hafa fengið takmörkuð svör frá bæjaryfirvöldum og lögreglu sömuleiðis. Þó væri ljóst að bænum væri skylt að hjálpa dýrinu.
Hér að neðan má sjá myndband af álftinni sem er komin í Húsdýragarðinn í Laugardal.
Svo fór í dag að starfsmenn Náttúrufræðistofnunar mættu á svæðið í dag ásamt Lindu Hrönn. Þar var einnig Helga Þórunn Sigurðardóttir, formaður Dýraverndunarsamtaka Hafnarfjarðar. Hún sagði aðgerðina hafa gengið mjög vel.
„Þetta gekk mjög vel í dag,“ segir Helga Þórunn. Þau hafi reynt að bjarga álftinni í gær en þá hafi álftin komist út á vatnið.
„Það var það sem klikkaði í gær.“
Þau hafi verið við vatnið allan sunnudaginn en misst fuglinn út á vatnið. Í dag hafi fulltrúar Náttúrufræðistofnunar komið með bát, fangað álftina í háf og komið með hana í land. Álftin hafi verið setti í eins konar spennitreyju svo hægt væri að aðstoða hana.
„Þau klipptu Red Bull dósina í burtu en álftin hafði troðið goggnum í gegnum drykkjargatið,“ segir Helga Þórunn. Álftin hafi greinilega verið orðin mjög þrekuð. Hún hafi í framhaldinu verið flutt í Húsdýragarðinn í Laugardal til skoðunar hjá dýralækni.
Líklega hefur álftin verið með dósina fasta á goggnum í tvær vikur. Til álftarinnar hafi sést víðar en við Urriðavatn, til dæmis á Tjörninni í Hafnarfirði.
Helga Þórunn segir mikið rusl hafa verið á svæðinu við Urriðavatn í dag.
„Þetta er bara mjög mikill sóðaskapur. Bæði dósir og svo „six-pack“-plastið. Það er ekki óalgengt að þurfa að bjarga fuglum sem stinga hausnum oft í þetta og geta ekki losað sig.“
Hún telur fólk þó orðið meðvitaðra um að ganga vel um en áður.
„Áður var það bara skrýtið fólk sem tíndi rusl. En ekki lengur. Nú eru fleiri sem láta sig málið varða.“
Linda Hrönn tekur undir þetta og hvetur fólk einfaldlega til þess að hætta að henda rusli.
Innlent