Fjölnir náði fimm stiga forskoti á toppi Inkasso-deildar karla með sigri á Magna, 1-3, á Grenivík í lokaleik 14. umferðar í dag.
Staðan var markalaus í hálfleik en mikið líf hljóp í leikinn í upphafi seinni hálfleiks.
Á 52. mínútu kom Guðni Sigþórsson Magna yfir með laglegu marki. Jón Gísli Ström kom inn á sem varamaður hjá Fjölni á 56. mínútu og aðeins mínútu síðar jafnaði hann metin.
Á 59. mínútu skoraði Guðmundur Karl Guðmundsson svo sigurmark Fjölnis eftir sendingu Alberts Ingasonar. Guðmundur Karl hefur nú skorað í þremur leikjum í röð.
Þegar fjórar mínútur voru til leiksloka skoraði Hans Viktor Guðmundsson þriðja mark Fjölnis og gulltryggði sigur gestanna úr Grafarvogi. Þeir hafa unnið þrjá leiki í röð og í síðustu sjö leikjum hefur Fjölnir fengið 19 stig af 21 mögulegu.
Magni er enn á botni deildarinnar með tíu stig, þremur stigum frá öruggu sæti.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
