Alls hafa níu börn greinst með sýkingar af völdum E. coli baktería. Fjögur fyrir helgi og svo bættust við fimm um helgina. Öll börnin eiga það sameiginlegt að hafa verið á ferð um Bláskógabyggð undanfarnar vikur. Þá eru þau öll búsett á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er óþægilegt að það er eins og allir liggi undir grun í svo gríðarlega stóru sveitarfélagi,“ segir Ásta í samtali við Vísi. Þau fylgist grannt með gangi mála en taki engan þátt í sjálfri rannsókninni.
Íbúar hugsa til barnanna
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði við Vísi í morgun að verið sé að vinna í að finna sameiginlegan punkt í ferðalögum barnanna í Bláskógabyggð. Hann segir reynt með ákveðnum faraldsfræðilegum upplýsingum að negla niður líklegustu staðina hvar smitið hafi átt sér stað.„Þá er tekið sýni þaðan og það gildir bæði um matvæli, vatn og fleira sem er verið að skoða.“
Ásta segir að búið sé að kanna öll vatnsbólin í Bláskógabyggð og þar sé allt í góðu lagi. Það sé í raun það sem snúi beint að sveitarfélaginu og rekstri þess. Þar sé ekkert að óttast.
„Við getum lítið gert nema bíða eftir niðurstöðum og það verður mjög gott þegar þær liggja fyrir.“
Fólk hugsi til barnanna sem hafi smitast.
Kenningar eigi ekki heima í fjölmiðlum
Þórólfur segir ekki tímabært að segja neitt um það á þessu stigi hvort líklegra sé að smitið komi úr matvælum eða vatni.„Það geta verið alls konar vangaveltur, teoríur og kenningar og því um líkt en það á ekki heima í fjölmiðlum. Við erum bara að vinna og skoða þessa hluti og þegar við erum orðin nokkuð viss um hvaðan þetta kemur þá munum við segja það. En á meðan svo er ekki þá höldum við þessari vinnu fyrir okkur,“ segir Þórólfur.
Fólk getur smitast af E. coli með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við dýr eða mengaðan úrgang dýra.
Þannig kemst bakterían um munn og niður í meltingarveg þar sem hún framleiðir eiturefni sem getur valdið blóðugum niðurgangi og í alvarlegum tilfellum nýrnabilun og blóðleysi.