Chelsea tók þrjú stig á Craven Cottage

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bláklæddir fögnuðu í dag
Bláklæddir fögnuðu í dag vísir/getty
Fulham færðist nær falli úr ensku úrvalsdeildinni eftir 2-1 tap fyrir Chelsea á heimavelli í dag.

Leikurinn var fjörugur og opinn allt frá fyrstu mínútu og til enda. Gonzalo Higuain skoraði fyrsta markið eftir tuttugu mínútna leik, góð fyrirgjöf inn á teiginn og framherji af hans gæðaflokki gat varla annað en klárað færið.

Aleksandar Mitrovic átti hörku skot en Kepa Arrizabalaga, sem var kominn aftur í markið eftir rifrildið við Sarri í úrslitaleik deildarbikarsins, varði vel. Upp úr hornspyrnunni sem fylgdi jafnaði Calum Chambers.

Fulham náði þó aðeins að halda leiknum jöfnum í þrjár mínútur. Eden Hazard átti góðan sprett, lagði svo boltann fyrir Jorginho sem skoraði í fyrsta.

Mikið fjör en ekki komu fleiri mörk í fyrri hálfleik. Það virtist þó öruggt að fleiri mörk kæmu í leikinn í þeim seinni miðað við fjölda færa sem liðin fengu.

Fulham gerði allt rétt í seinni hálfleik, setti púður í sóknarleikinn þó þeir væru kannski opnari til baka enda lítið annað í stöðunni en að reyna að sækja mark.

Kepa sannaði að það var rétt ákvörðun hjá Sarri að refsa honum ekki frekar og kom með nokkrar frábærar markvörslur í seinni hálfleik.

Undir lok leiksins átti Mitrovic góðan skalla eftir vel útfærða skyndisókn en Kepa varði og stuðningsmenn Fulham hafa líklega óttast að þar hafi jöfnunarfærið komið. Í uppbótartíma leiksins kom Ryan Sessegnon boltanum hins vegar í netið.

Aðstoðardómarinn flaggaði hann rangstæðan og miðað við endursýningar var það rétt ákvörðun en þetta var mjög tæpt. Chelsea fór því með stigin þrjú á Stamford Bridge en Fulham á enn von á að halda sér uppi ef þeir spila þá leiki sem eftir er eins og þennan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira