Minniháttar skemmdir voru unnar þegar brotist var inn í heimili í Garðabæ í gærkvöldi en engu virðist hafa verið stolið. Lögregla telur að heimilishundurinn hafi fælt innbrotsþjófinn á brott.
Innbrotið var eitt hundrað mála sem bókuð voru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Sex manns voru vistaðir í fangageymslu og fjórtán voru handteknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Einn maður var handtekinn í Hafnarfirði eftir tilkynning barst lögreglu um heimlisofbeldi á tíunda tímanum í gærkvöldi. Sá sem varð fyrir ofbeldinu er sagður hafa haft áverka eftir líkamsárás. Maðurinn var látinn gista fangageymslu í nótt.
Þegar klukkan var að verða hálf eitt í nótt var tilkynnt um ungmenni sem köstuðu eggjum í bifreið í Grafarholti í Reykjavík. Ökumaður náði einu ungmennanna og óskaði eftir aðstoð lögreglu.
Innlent