Erlent

Indverskur tæknifrömuður gefur 878 milljarða til góðgerðamála

Andri Eysteinsson skrifar
Azim Premji er næst ríkasti maður Indlands.
Azim Premji er næst ríkasti maður Indlands. Getty/Bloomberg
Næst ríkasti maður Indlands, milljarðamæringurinn Azim Premji , sem gegnir stöðu stjórnarformanns tæknifyrirtækisins Wipro hefur ákveðið að gefa hlutabréf að andvirði 530 milljarða rúpía sem jafngildir um 878 milljarða króna til góðgerðamála. CNN greinir frá.

Góðgerðastofnunin sem fær gjöfina rausnarlegu er hans eigin stofnun sem vinnur að því að bæta menntunarstig Indlands og er Azim Premji háskólinn í Bangalore rekinn af stofnuninni.

Premji, sem er 78 ára gamall, hefur nú gefið stofnuninni yfir 21 milljarð Bandaríkjadala í gegnum tíðina. Premji var fyrsti indverski kaupsýslumaðurinn til að skrifa undir ákall Warren Buffett, Bill og Melindu Gates, The Giving Pledge, sem skoraði á ríkasta fólk í heimi að gefa stærsta hluta eigna sinna til góðgerðarmála. Premji er nú metinn á 18 milljarði Bandaríkjadala.

Framlag Premji til stofnunarinnar er hæsta góðgerðaframlag í indverskri sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×