Erlent

Þúsundir tóku víkingaklappið í mótmælum í Beirút

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur á götum Beirút.
Mótmælendur á götum Beirút. AP/Hassan Ammar
Undanfarnar daga hafa tugir þúsunda íbúa Líbanon mótmælt á götum borga landsins. Um er að ræða einhver umfangsmestu mótmæli landsins í nokkur ár og er verið að mótmæla spillingu, efnahagsástandi landsins og miklu atvinnuleysi, svo eitthvað sé nefnt. Stærstu mótmælin hafa farið fram í Beirút, höfuðborg Líbanon.

Upphaf mótmælanna má rekja til margra atvika. Meðal annars þess að eftir að umfangsmiklir skógareldar geisuðu í Líbanon fyrr í vikunni kom í ljós að þrjár af þyrlum slökkviliðsins hafa verið bilaðar í nokkur ár.

Á fimmtudaginn tilkynnti ríkisstjórn Líbanon að til stæði að leggja skatt á netsímtöl eins og hægt er að eiga með forritum eins og WhatsApp, FaceTime og Facebook. Þar að auki stóð til að hækka virðisaukaskatt upp í fimmtán prósent á næstu árum. Í gærkvöldi var þó tilkynnt að WhatsApp-skatturinn, eins og hann hefur verið kallaður, verður ekki lagður á.

Saad al-Hariri, forsætisráðherra, sagði í gær að Líbanon væri að ganga í gegnum erfitt tímabil. Hann vildi þó ekki segja af sér og gaf samstarfsaðilum hans í ríkisstjórn þrjá sólarhringa til að hætta að standa í vegi endurbóta.



Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda héldu mótmælin áfram í gærkvöldi og fram á nótt. Mótmælendur kveiktu í dekkjum, rusli og öðru og kom til átaka á milli mótmælenda og lögreglu.

Fyrir það tóku mótmælendur sig hins vegar til og tóku víkingaklappið á götum Beirút. Þúsundir mótmælenda tóku þátt og sjá má klappið á myndbandi hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×