Körfubolti

Í stórhættu í körfuboltaleik vegna ótrúlegs stökkkraftar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blaise Meredith liggur á gólfinu eftir höggið.
Blaise Meredith liggur á gólfinu eftir höggið. Skjámynd/@Skubie3Mageza
Slysin gera ekki boð á undan sér og stundum geta meira að segja hæfileikar manna sett þá í mikla hættu inn á körfuboltavellinum.

Þannig var raunin hjá bandaríska körfuboltamanninum Blaise Meredith sem fékk óvenjulegt höfuðhögg í leik með skólaliði sínu.

Bandarískir miðlar og fólk á samfélagsmiðlum hafa keppst við að deila myndbandi með Blaise Meredith og af skiljanlegri ástæðu.

Blaise Meredith sýndi ótrúlegan stökkkraft sinn í leik með North Central skólanum en hann fékk líka að finna fyrir því eins og sjá má hér fyrir neðan.





North Central var þarna að spila við Augustana og Blaise Meredith ætlaði heldur betur að verja skot frá Chrishawn Orange.

Chrishawn Orange slapp einn upp völlinn í hraðaupphlaupi en Blaise Meredith var ekki búinn að gefast upp.

Blaise Meredith stökk upp og ætlaði að verja skot Chrishawn Orange með tilþrifum en stökk svo hátt að hann skall með höfuðið í spjaldinu eins og sjá má í myndbandinu.

Þetta var mikið högg eins og heyrist á hljóðinu í umræddu myndbandi. Viðbrögð áhorfenda auka líka á dramatíkina.

Blaise Meredith stóð sem betur fer fljótlega upp aftur og hélt síðan áfram að spila. Hann passar sig kannski að hoppa ekki of hátt næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×