Erlent

Sjö látnir og fjölda saknað eftir að bát hvolfdi í Búdapest

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil rigning er á staðnum.
Mikil rigning er á staðnum. epa
Sjö eru látnir og fjölda fólks er enn saknað eftir að bát hvolfdi í Dóná í Búdapest í kvöld.

Ungverski fjölmiðillinn Index greinir frá því að 34 hafi verið um borð í bátnum, sem notaður er í útsýnissiglingar í ungversku höfuðborginni, þegar hann hvolfdi og sökk um klukkan 22 að staðartíma.

Í yfirlýsingu frá ungverska innanríkisráðuneytisnu segir að margir þeirra sem voru um borð hafi verið asískir ferðamenn, flestir frá Suður-Kóreu. Báturinn sem um ræðir nefnist „Hableany“, eða Hafmeyjan.

Mikil rigning er á staðnum og hefur hún torveldað allt björgunarstarf.

Báturinn á að hafa verið á siglingu í grennd við ungverska þinghúsið þegar hann rakst á annan bát og hvolfdi svo.

Báturinn sem um ræðir, „Hableany“ eða Hafmeyjan.EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×